Lífið

Pink tók veðmáli

Það er nú ekki af þeim skafið drengjunum í 70 mínútum á Popptíví að þeir eru sniðugir, uppátækjasamir og alveg bandbrjálaðir á tímum. Um helgina lögðu þeir Pétur Jóhann, Auðunn Blöndal og ofurhuginn Hugi upp í langferð til Graz í Austurríki þar sem stóð til að hitta tónlistarkonuna Pink. Pink er einmitt á leið til Íslands og heldur hér tónleika 10. og 11. ágúst. Ferðalagið gekk þó ekki eins og í sögu eins og oftast er upp á teningnum hjá strákunum og byrjuðu þeir á því að missa af tengiflugi sínu frá London til Austurríkis. Strákarnir lögðu höfuðin í bleyti, og ekki dónaleg höfuð það, og komust að lokum til Graz í Austurríki með hjálp flugvéla, lesta og langferðabíla. Þá áttu þeir eftir að koma sér í tónleikahöllina og lentu þeir á leigubílstjóra dauðans sem talaði hvorki ensku, þýsku né dönsku og varla mál innfæddra og gekk því lítið að útskýra fyrir honum hvert þeir vildu fara. Loksins komust strákarnir á leiðarenda, þó þrjátíu mínútum of seint og fengu viðtalið við poppdívuna Pink þrátt fyrir allt saman. Óhætt er að segja að viðtalið við Pink mun vekja mikla lukku og athygli þar sem Pink tók veðmáli aldarinnar við Auðunn. Fyrst hún gerði það blessunin mun Pétur Jóhann verða að reyna slíkt hið sama við rapptröllið 50 Cent sem er væntanlegt til landsins um svipað leyti og Pink. Vandi er um það að spá hvert veðmálið er og því þurfa áhorfendur að sitja límdir við skjáinn öll kvöld á næstunni til að sjá hvað strákarnir "okkar" á Popptíví gerðu við greyið Pink. Vonandi hættir hún samt ekki við Íslandsförina.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.