Lífið

Enska blómarósin sigraði heiminn

Hin 19 ára gamla Keira Knightley er vinsælasta breska kvikmyndastjarnan nú um stundir. Bresku blöðin halda ekki vatni yfir henni og hæfileikum hennar og bandarískir fjölmiðlar hafa einnig veitt henni mikla eftirtekt. Faðir hennar er leikari, Will Knightley, og móðir hennar er rithöfundurinn Sharman MacDonald. Keira ákvað snemma að verða listamaður og var þriggja ára þegar hún bað móður sína um að útvega sér umboðsmann. Hún þurfti að bíða í þrjú ár og hóf leikferil sjö ára gömul en vakti ekki athygli fyrr en hún lék tólf ára gömul í dramatískri sjónvarpsmynd, Coming Home. Hún leggur ríka áherslu á að foreldrar hennar hafi gætt þess vel að leikferillinn tefði ekki fyrir skólanámi. Samt fór svo að hún hætti í skóla sextán ára gömul og gefur þá skýringu að sér hafi drepleiðst þar. Árið 2002 lék hún í sjónvarpsmynd eftir sögu Boris Pasternak, Dr. Zhivago, og fór með hlutverk Löru, sama hlutverk og Julie Christie skilaði svo vel í frægri kvikmynd Davids Lean. Frammistaða Keiru var ekki jafngóð. Hún vakti meiri athygli í Bend It Like Beckham og varð heimsþekkt eftir hlutverk sitt í sjóræningamyndinni Pirates of the Caribbean. Meðan hún vann að myndinni var hún sannfærð um að hún yrði rekin. Í staðinn hlaut hún mikið lof, jafnvel þótt Johnny Depp stæli senunni. Í Love Actually var hún hin fullkomna nútímalega enska blómarós. Stærsta hlutverk hennar hingað til er í King Arthur þar sem hún leikur Guinevere drottningu. Bandaríkjamenn hafa tekið Keiru fagnandi og sennilega hefur engin bresk leikkona seinni ára hlotið viðlíka móttökur, nema þá kannski Kate Winslet. Vanity Fair skellti Keiru á forsíðu og kvikmyndatilboðin streyma til hennar frá Hollywood-mógúlum. Hún sýnist þola frægðina nokkuð vel en segir að það sem sér líki verst sé að slúðurblaðamenn fylgist grannt með ferðum hennar. Hún segist lifa venjulegu lífi og verslar enn sem komið er ennþá í Marks & Spencer. Hún segist ekki vera forrík. "Ég les í blöðum um laun mín og hugsa með sjálfri mér: Ég vildi að þetta væri satt, " segir hún og bætir við að það sé fullt af hlutum sem hún hafi ekki efni á að kaupa sér. Þeir sem fylgst hafa með sigurgöngu hennar reikna með að ekki líði langur tími þar til hún geti veitt sér allar heimsins lystisemdir.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.