Lífið

Bjargvættur sýnd á Íslandi

"Ég kem alltaf til landsins á sumrin til að fara í laxveiði í Borgarfirði eins og sannur Íslendingur," segir kvikmyndagerðarkonan Erla B. Skúladóttir sem er búsett í Bandaríkjunum og hefur þar í landi sópað að sér verðlaunum fyrir stuttmynd sína Bjargvættur. Erla er nú stödd á Íslandi og meðal annars til að halda sýningu á Bjargvættinum hérlendis. "Ég vil svo gjarna að Íslendingar fái að njóta myndarinnar," segir Erla en leikararnir Guðrún Gísladóttir, Kristbjörg Kjeld og Ívar Örn Sverrisson eru meðal þeirra sem fara með hlutverk í stuttmyndinni. "Myndin er á íslensku og tekin upp hér á landi," en kvikmyndatökumaðurinn, Brian Hubbard, hefur hlotið verðlaun fyrir kvikmyndatökuna í myndinni. "Myndin er íslensk í húð og hár og Brian Hubbard er meira að segja orðinn svo ástfanginn af landinu í kjölfarið að hann langar helst til að flytja hingað." Bjargvættur verður sýnd í Háskólabíói á morgun klukkan 17.15. "Ástæðan fyrir því að ég held sýninguna nú er að það virðist alls staðar vera svo mikið peningaleysi að það lítur ekki út fyrir að ég komi myndinni til sýningar í sjónvarp hér heima. Til að vera samkeppnishæf á Edduverðlaununum í nóvember verður myndin að hafa verið sýnd opinberlega að minnsta kosti einu sinni og ég ákvað því að halda boðsýningu í Háskólabíói þar sem allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir," segir Erla en Bjargvættur er 28 mínútur að lengd. Stuttmyndin fjallar um fjórtán ára stelpu sem er send í sumarbúðir eftir að foreldrar hennar komast að því að hún er byrjuð að drekka. "Freydís Kristófersdóttir leikur aðalhlutverkið og hún og Kristjana Júlía Þorsteinsdóttir sem leikur vinkonu hennar í sumarbúðunum ætla báðar að mæta á sýninguna á morgun." En þess má geta að Bjargvættur var valin besta stuttmyndin á kvikmyndahátíðinni í Nashville og verðlaunin veita myndinni rétt til að vera í úrtaki fyrir Óskarsverðlaunin.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.