Erlent

Pyntingatól í Írak

Pyntingartól sem Údei Hussein notaði til að refsa íþróttamönnum í stjórnartíð Saddams, föður hans, voru höfð til sýnis á þjóðarleikvangi Íraka í Bagdad í gær. Þetta var gert í tilefni Ólympíuleikanna sem haldnir verða í næsta mánuði til að minna á að ógnarstjórnin sé liðin undir lok.  Á íþróttaleikvanginum í Bagdad í gær gaf m.a. að líta fallöxi, kistu með járngöddum innan í og keðjur með stálkúlum á stærð við tennisbolta á endunum. Þessi tól og fleiri voru notuð af hinum illræmda Údei til þess að refsa íþróttamönnum frá Írak sem ekki stóðu undir væntingum. Údei, sem var yfirmaður Ólympíunefndar Íraka í stjórnartíð föður síns, var eins og kunnugt er drepinn af Bandaríkjaher á síðasta ári ásamt eldri bróður sínum, Kúsei. Það er óhætt að segja að íþróttamenn sem reiddu Údei til reiði með slakri frammistöðu hafi ekki verið teknir neinum vettlingatökum þegar hann fór með yfirumsjón íþróttamála í Írak. Þegar frammistaðan var ekki ásættanleg að mati hans voru íþróttamennirnir m.a. látnir ganga berfættir yfir heitt malbik, barðir með keðjum og þeim haldið vakandi svo sólarhringum skipti. Nú eru hins vegar betri tímar í vændum fyrir íþróttamenn í Írak og þeir fá að keppa á Ólympíuleikunum í Aþenu í ágúst eftir að hafa verið í alþjóðlegu banni í rúmt ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×