Erlent

Dráp og mannrán halda áfram

Vígamenn í Írak drápu átta manns í dag, þar á meðal háttsettan embættismann úr innanríkisráðuneytinu. Ekkert lát er á mannránum en tveimur Jórdönum og tveimur Pakistönum var rænt í dag til viðbótar við þá sjö gísla sem hafa setið í haldi í rúma viku.  Jórdanarnir eru bílstjórar hjá jórdönsku fyrirtæki sem vinnur fyrir Bandaríkjastjórn. Mannræningjarnir hafa gefið fyrirtækinu þriggja daga frest til að fara frá Írak; annars verði gíslarnir drepnir. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar Al Jazeera sitja tveir Pakistanar í haldi mannræningja en þeir unnu fyrir Bandaríkjastjórn. Mannræningjarnir hafa hótað að drepa mennina vegna þess að til greina hafi komið að senda pakistanska hermenn til Íraks. Hópur íslamskra skæruliða í Írak, sem heldur sjö erlendum borgurum í gíslingu, hefur framlengt frest sem þeir höfðu gefið samningamönnum. Lífi gíslanna, sem allir vinna fyrir kúveiskt fyrirtæki, verður því þyrmt um sinn. Myndin er af myndbandsupptöku af jórdönsku gíslunum tveimur. Hægt er að sjá hluta myndbandsins úr fréttum Stöðvar 2 með því að smella á hlekkinn hér að neðan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×