Viðskipti innlent

Vöruskiptajöfnuður lakari

Vöruskiptajöfnuðurinn var 14,7 milljörðum króna lakari á fyrstu sex mánuðum ársins en á sama tíma árið áður, samkvæmt tölum frá Hagstofunni. Vöruskiptin í júní voru óhagstæð um 6,9 milljarða króna þar sem fluttar voru út vörur fyrir 16,3 milljarða en inn fyrir 23,2 milljarða króna. Í júní í fyrra voru vöruskipti óhagstæð um 3,2 milljarða á föstu gengi. Verðmæti vöruútflutnings fyrstu sex mánuði ársins var tæplega sex prósentum meira en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 61% alls útflutnings og var verðmæti þeirra tæpum fimm prósentum meira en á sama tíma árið áður. Aukning varð í verðmæti saltfisks og fersks fisks en á móti kom samdráttur í útflutningi frystra flaka. Verðmæti útfluttra iðnaðarvara var rúmlega sjö prósentum meira en á sama tíma árið áður, aðallega vegna aukningar á útfluttum lyfjum og lækningavörum. Verðmæti vöruinnflutnings fyrstu sex mánuði ársins var um nítján prósentum meira en á sama tíma árið áður. Mest aukning varð í innflutningi á fjárfestingarvörum en einnig var umtalsverð aukning í innflutningi hrá- og rekstrarvara, neysluvara, fólksbíla, flutningatækja til atvinnurekstrar, eldsneytis og smurolía og matvöru. Hins vegar var minni innflutningur á skipum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×