Heilbrigðiseftirlitið tilkynnti Hreint ehf. fyrr í mánuðinum að ef fyrirtækið hefði ekki sótt um leyfi fyrir daginn í dag yrði þjónustan stöðvuð. Hreint kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndarinnar og fór fram á frestun réttaráhrifa, sem eftirlitið mótmælti ekki.
Í úrskurði nefndarinnar segir að um sé að ræða íþyngjandi ákvörðun sem beinist eingöngu að Hreint og geti valdið fyrirtækinu tjóni. Þar sem engar knýjandi ástæður liggi fyrir að hefja aðgerðir tafarlaust sé rétt að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar þar til endanleg niðurstaða liggur fyrir.
Hreint ehf. telur að ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins byggi ekki á skýrum lagagrundvelli og að starfsemi fyrirtækisins falli ekki með ótvíræðum hætti undir skilgreiningu á „þvottahúsi“. Þvottahús sé aðeins lítill hluti starfseminnar. Þá megi, að mati fyrirtækisins, ná markmiðum laganna með vægari úrræðum.
Úrskurður nefndarinnar er til bráðabirgða og felur ekki í sér efnislega afstöðu til þess hvort reksturinn sé starfsleyfisskyldur. Niðurstaða í málinu liggur því ekki enn fyrir, en fram að því má Hreint ehf. halda starfseminni ótruflað áfram.
Hreint ehf. var stofnað 12. desember 1983 og er ein elsta og stærsta ræstingaþjónusta landsins. Fyrirtækið er til húsa í Auðbrekku í Kópavogi. Ekki náðist í Ara Þórðarson, framkvæmdastjóra Hreint, við vinnslu fréttarinnar.