Viðskipti innlent

Mikill hagnaður bankanna

Landsbankinn og KB banki högnuðust um sex milljarða króna hvor um sig á fyrstu sex mánuðum ársins. Greiningardeild Landsbankans hafði spáð KB banka mun meiri hagnaði. Eftir sex mánaða uppgjör Landsbanka og KB banka hafa stóru viðskiptabankarnir kynnt afkomutölur, en Íslandsbanki kynnti sínar í fyrradag. Þar er hagnaðurinn 3,7 milljarðar. Hjá Landsbankanum er hagnaðurinn sex milljarðar og 6,2 tveir hjá KB banka. Ef litið er á hagnað sameinaðs Íslandsbanka og Sjóvá-Almennra er hagnaðurinn 6,8 milljarða króna. Þannig hafa bankarnir þrír hagnast um milljarð á mánuði. Greiningardeild Landsbankans hafði reyndar spáð KB banka enn meiri hagnaði eða tíu milljörðum króna. Þar á bæ er hagnaður KB banka sagður langt undir væntingum. Er þar sem dæmi talið til minni gengishagnaður og minni tekjur af fyrirtækjaþjónustu hjá KB banka. Eigið fé KB banka hefur hins vegar aukist um þrjá milljarða frá fyrstu þremur mánuðum ársins og er nú rúmir 50 milljarðar króna. Skýringin á því er kaup KB banka á danska bankanum FIH, sem Landsbankinn sóttist einnig eftir. 40 milljarða hlutafjárútboð í KB banka hófst svo í dag og er eigendum hlutafjár í bankanum boðið að kaupa viðbótarhlutafé í samræmi við eign sína, á lægra gengi en markaðsvirði hefur verið að undanförnu. Ekki verða gefna út tölur um það fyrr en útboðinu lýkur, 6. ágúst en innan viðskiptalífsins er talað um mjög góð viðbrögð hlutafjáreigenda.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×