Viðskipti innlent

Hagnaður tvöfaldast milli ára

Hagnaðurinn var minni en greiningardeildir bankanna höfðu spáð, en mikill munur var á spá Landsbankans og Íslandsbanka um rekstrarniðurstöðu bankans. Hagnaður KB banka á öðrum ársfjórðungi var 3,5 milljarðar króna, en Landsbankinn spáði 7,3 milljarða hagnaði. Frávikið skýrist að stærstum hluta af lægri gengishagnaði. Landsbankinn gerði ráð fyrir að arðgreiðsla af eignarhlut í Singer and Friedlander kæmi sem gengishagnaður upp á 1,9 milljarða. Hins vegar eru bréf breska bankans skráð á markaði og lækkaði gengi þeirra eftir arðgreiðsluna, þannig að ekki myndaðist neinn gengishagnaður af arðgreiðslunni. Bankinn tvöfaldaði hagnað sinn miðað við sama tímabil í fyrra. Heildareignir bankans jukust um 91 milljarð frá áramótum. Stærstu tíðinda tímabilsins sér ekki stað í uppgjöri KB banka, en það eru kaupin á danska bankanum FIH. Þau kaup munu hafa mikil áhrif á ásýnd bankans. Hagnaður KB banka á fyrri hluta ársins nam rúmum 6,1 milljarði króna.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×