Viðskipti innlent

Spáð hækkandi bensínverði

Áhrifa hærra olíuverðs gætir hér á landi sem annars staðar og er spáð hækkun bensínverðs á næstunni, auknum viðskiptahalla og verðbólgu. Bensín og olía hefur ekki verið dýrari hér í meira en áratug. Bensín- og olíuinnflutningur jókst um á annan milljarð króna fyrstu sex mánuði ársins miðað við sama tíma í fyrra, samkvæmt Morgunkorni Íslandsbanka, en alls var flutt inn fyrir 8 milljarða króna. Megnið er vegna sjávarútvegs en hærra olíuverð kemur sérstaklega illa niður á sjávarútvegi sem og flutningastarfsemi. Áhrifin eiga eftir að koma betur í ljós þar sem mikið er um framvirka samninga um eldsneytiskaup. Ljóst er einnig að bifreiðaeigendur eiga eftir að finna fyrir þessu ástandi og spá sérfræðingar Íslandsbanka frekari verðhækkunum á bensíni á næstunni. Það sem af er þessu ári hefur bensín hækkað á Íslandi um 12% og er nú hærra en það hefur verið í meira en áratug. Sérfræðingarnir segja að í heildina sé hærra heimsmarkaðsverð á bensíni til þess fallið að draga úr hagvexti á Íslandi, auka viðskiptahallann sem og verðbólgu og hækkunin sé því slæm tíðindi fyrir íslenskt efnahagslíf.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×