Erlent

Harka og ósvífni í kapphlaupinu

Harka og ósvífni er komin í forsetakapphlaupið í Bandaríkjunum. Hópar sem tengjast Bush forseta saka John Kerry um að ljúga til um hetjudáðir í Víetnamstríðinu og gefa í skyn að hann sé engin stríðshetja. Kerry segir þetta skítkast úr herbúðum forsetans. John Kerry byrjaði ræðu sína á flokksþingi demókrata í Boston í lok júlí á því að heilsa að hermannasið og síðan þá hefur herþjónusta hans í Víetnam - og heiðurorður sem hann hlaut fyrir framgang sinn þar - verið þungamiðja kosningaáróðurs hans. Tilgangurinn er að sannfæra Bandaríkjamenn um að John Kerry sé stríðshetja og sterkur leiðtogi í ólgusjó hryðjuverkaárása og stríðsreksturs í Írak. Það er því út af fyrir sig ekki skrítið að andstæðingar skuli reyna að spilla fyrir áróðursvélinni og hópur fyrrverandi hermanna í Víetnam hefur reynt það undanfarið, með fjárhagslegum stuðningi tveggja auðmanna frá Texas sem hafa löngum stutt rækilega við bakið á Bush-feðgunum. Í sjónvarpsauglýsingu hópsins er því haldið fram að Kerry ljúgi til um framgang sinn í Víetnam og hafi fengið heiðursmerki á fölskum forsendum. Í millitíðinni er ljóst að þær sakir eru rangar og að skýrslur hersins taka af allan vafa um það að John Kerry er stríðshetja. En eðli áróðurs er sá að hann hefur sín áhrif, hvort sem hann er byggður á sannleika, lygi eða einhverjum óljósum fullyrðingum á gráu svæði. Og því hefur Kerry nú snúist til varnar. Einn fulltrúa hans lét hafa eftir sér í gær að það væru sprengjubrot í lærinu á John Kerry eftir stríðið í Víetnam. Til samanburðar væru tvær fyllingar í tönnunum á George Bush sem var í þjóðvarðliðinu í Alabama á sama tíma. Þeim hefði líklega verið komið fyrir í eina skiptið sem Bush mætti. Bush hefur raunar löngum verið sakaður um að hafa látið föður sinn bjarga sér frá herþjónustu í Víetnam með því að koma honum inn í þjóðvarðliðið, og honum hefur ekki tekist að hrekja sögusagnir um að hann hafi skrópað stóran hluta þess tíma sem hann átti að vera þar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×