Innlent

Krefjast þess að Siv haldi áfram

Stjórn Kjördæmissambands framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi krefst þess að formaður og þingflokkur Framsóknarflokksins falli frá þeirri ákvörðun að láta Siv Friðleifsdóttur hætta í ríkisstjórn og tryggi henni áframhaldandi ráðherraembætti eftir að flokkurinn tekur við forsætisráðuneytinu 15. september. Í ályktun stjórnar Kjördæmisráðsins í gærkvöld er bent á að Suðvesturkjördæmi sé fjölmennasta kjördæmi landsins og að þar hafi flokkurinn fengið 19,7 prósent atkvæða í síðustu kosningum. Siv Friðleifsdóttir hafi því flest atkvæði allra þingmanna Framsóknarflokksins á bak við sig, auk þess sem hún hafi langa þingreynslu og sé af nýrri kynslóð í flokknum. Af þeim sökum sé óverjandi að vísa henni úr ríkisstjórn, eins og þingflokkurinn samþykkti í síðustu viku, og er þess krafist að sú ákvörðun verði endurskoðuð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×