Viðskipti innlent

Greiðslukortavelta eykst

Greiðslukortavelta heimilanna hefur aukist verulega á þessu ári, á sama tíma og vanskil einstaklinga og fyrirtækja hjá bönkum og sparisjóðum hafa minnkað. Samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu hafa heildarvanskil hjá innlánastofnunum minnkað úr 3,1 prósenti um síðustu áramót í 2,2 prósent eftir fyrstu sex mánuði ársins. Vanskil einstaklinga minnkuðu úr 5,5 prósentum í 4,6 prósent á sama tímabili, og vanskil fyrirtækja úr 2,5 prósentum í 1,7 prósent. Erfitt er að fullyrða hvort þetta gefi tilefni til að landsmenn hafi meira fé milli handanna, eða hvort þarna sé einfaldlega á ferðinni betri fjármálastjórn heimila og fyrirtækja. Í þessu samhengi er athyglivert að þensla og eftirspurn hér á innanlandsmarkaði hefur aukist verulega á fyrri helmingi ársins, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni. Þannig var greiðslukortavelta heimilanna í landinu 8,1 prósenti meiri síðustu 12 mánuði en næstu 12 mánuði þar á undan. Landsmenn virðast einkum nota debetkort í ríkari mæli en áður, en noktun þeirra hefur aukist um 12,7 prósent, en kreditkortanotkun jókst um 4,1 prósent á þessu tímabili. Þá virðist landinn ekki spara við sig í útlöndum, því kreditkortavelta Íslendinga erlendis jókst um 19,2 prósent fyrstu sjö mánuði ársins, miðað við sama tímabil í fyrra. Þegar rýnt er í hagvísa Hagstofunnar kemur einnig í ljós að sala á kjöti hefur aukist um 5 prósent á síðustu tveimur árum. Mestu munar þar um sölu á fuglakjöti, sem jókst um heil 35 prósent. Eftir samdrátt í sölu lambakjöts í fyrra rauk sala á því upp um 5,2 prósent síðustu 12 mánuði, enda ku það hafa verði vinsælt á útigrillum landsmanna í sumar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×