Viðskipti innlent

Umtalsverð lækkun lyfjaverðs

Heilbrigðisyfirvöld hafa gert samkomulag við fulltrúa frumlyfjaframleiðanda innan Félags íslenskra stórkaupmanna og við fulltrúa Actavis hf um lækkun lyfjaverðs. Samkvæmt samkomulaginu er stefnt að því að lyfjaverð í heildsölu á Íslandi verði sambærilegt við meðalverð á hinum Norðurlöndunum hverju sinni innan 2ja ára. Samtals mun lyfjaverðslækkun á þessu ári nema um 763 m.kr. í heildsölu sem svarar um 1.136 m.kr. í smásölu. Þegar samkomulagið um lægra lyfjaverð var í höfn var horfið frá áformum um upptöku viðmiðunarverðs lyfja með sambærileg meðferðaráhrif en það átti samkvæmt reglugerð að taka gildi hinn 1. ágúst 2004 sl. Íslendingar taka minna af lyfjum en nágrannaþjóðirnar en borga mun meira fyrir. Á síðustu árum hefur lyfjakostnaður landsmanna aukist hröðum skrefum. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um íslenska lyfjamarkaðinn frá því í mars 2004 kemur meðal annars fram að þrátt fyrir að lyfjanotkun á hvern íbúa á Íslandi hafi undanfarin ár verið minni en á hvern íbúa í nágrannalöndunum, hefur lyfjakostnaður hér á landi verið mun meiri. Þannig var lyfjakostnaður á hvern Íslending 46% meiri árið 2003 en á hvern Dana og Norðmann. Árið 2003 nam heildarlyfjakostnaður á Íslandi m.v. skráð hámarksverð samtals 14 milljörðum króna. Sé gengið út frá svipaðri lyfjanotkun og að sama lyfjaverð hefði gilt á Íslandi og í Danmörku og Noregi hefði það þýtt að lyfjakostnaður landsmanna árið 2003 hefði orðið um 4,4 milljörðum króna lægri en hann varð.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×