Viðskipti innlent

Kaupin rýra verð Landssímans

Kaup Landssímans á Fjörgný, sem á fjórðungshlut í Skjá einum og sýningarrétt á ensku knattspyrnunni, mun draga úr verðgildi félagsins við einkavæðingu að mati Skarphéðins Berg Steinarssonar, stjórnarformanns Norðurljósa. Hann segir þróunina vera þá að sjónvarpsefni verði í auknum mæli sent út í gegnum dreifikerfi símafyrirtækjanna og Landssíminn hefði orðið leiðandi á því sviði að hans mati. Kaup félagsins á Fjörgný geri það hins vegar að verkum að Norðurljós fari ekki í samstarf um uppbyggingu slíks kerfis. ,,Ef Landssíminn hefði stillt sig um að fara í beina samkeppni á sjónvarpsmarkaði hefði hann getað verið í fararbroddi við að byggja um dreifikerfi í samstarfi við öll fjölmiðlafyrirtækin. Í stað þess er opinbert fé notað til að styrkja fjárhagslega veika sjónvarpsstöð á samkeppnismarkaði. Þetta er sérkennileg forgangsröðun." Skarpéðinn telur viðskiptin tengjast átökunum sem stóðu um fjölmiðlafrumvarpið. ,,Aðdáendur fjölmiðlafrumvarpsins eru að nota peninga Landssímans til að halda þeim leik áfram. Þeim gekk ekki að koma höggi á Norðurljós með frumvarpinu og þá eru aðrar leiðir farnar til þess. Við höfðum átt í óformlegum viðræðum við aðstandendur Fjörgnýs um að kaupa félagið en svo kemur Landsíminn inn í myndina með opinbert fé og nær viðskiptunum." Skarphéðinn telur að Landssíminn hafi skuldbundið sig fyrir að minnsta kosti hálfan milljarð króna með kaupunum á Fjörgný. Hann vísar því á bug, sem haldið hefur verið fram í fréttum, að forsvarsmenn Norðurljósa hafi leitað til Landsbankans til að reyna að koma í veg fyrir viðskiptin, en bankinn er helsti lánadrottinn Skjás eins. Ekki náðist í forsvarsmenn Landssímans í gær.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×