Innlent

Togstreita í stjórnarsamstarfinu

Rétt fyrir forsætisráðherraskiptin er augljós togstreita í stjórnarsamstarfinu og það eru engin smámál sem um er að tefla. Þó að stjórnarherrarnir hafi náð samkomulagi um skattalækkanir er ljóst, nú þegar fjórir dagar eru þangað til Davíð Oddsson láti af embætti sem forsttisráðherra og Halldór Ásgrímsson taki við, að það er ýmislegt fleira sem ágreiningur er um á stjórnarheimilinu en hvort setja eigi skilyrði fyrir sölu Símans. Eitt af því er loforðið um hækkun örorkulífeyris. Öryrkjabandalagið telur að enn vanti fimm hundruð milljónir upp á að samkomulagið um hækkunina sé efnt. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra hefur sagt að hann stefni að því að fullnusta samkomulagið, annað hafi aldrei staðið til. Í dag upplýsti Davíð Oddsson eftir ríkisstjórnarfund að í fjárlögum væri ekki gert ráð fyrir þessum fimm hundruð milljónum; með þeim eina milljarði sem þegar hefur runnið í málið hafi verið vel gert og staðið við samkomulagið. Þá eru það sjávarútvegsmálin. Halldór Ásgrímsson, verðandi forsætisráðherra, sagði á sjávarútvegsráðstefnu um helgina að Íslendingar yrðu að búa sig undir að leyfa útlendingum að eiga meirihluta í sjávarútvegsfyrirtækjum. Þetta telur Davíð Oddsson óráð. Hann segir ekkert knúa á að Íslendingar ýti á að útlendingar fjárfesti í höfuðgrein okkar sem yrði þá ekki í okkar höndum að fullu og öllu og arfurinn hyrfi til annarra landa. Hann vill því fara mjög varlega í þeim efnum.    



Fleiri fréttir

Sjá meira


×