Erlent

Dæmdur fyrir misþyrmingar á föngum

Bandarískur hermaður var í dag dæmdur til átta mánaða fangelsisvistar fyrir að hafa misþyrmt föngum í Abu Ghraib fangelsinu í Írak. Hermaðurinn brotnaði saman í réttarsalnum og sagðist bera fulla ábyrgð á gerðum sínum. Alls átta bandarískir hermenn hafa verið ákærðir fyrir að misþyrma Írökum í fangelsinu illræmda. Armin Cruz, tuttugu og fjögurra ára hermaður í sérstakri njósnasveit Bandaríkjahers, er annar í röðinni til að hljóta dóm. Hann var lækkaður í tign, þarf að sitja átta mánuði í fangelsi og var rekinn úr hernum með skömm. Cruz sagði við yfirheyrslur áður en hann var dæmdur í dag að hann bæri fulla ábyrgð á gerðum sínum, hann hafi vitað að hann væri að gera rangt en gæti þó ekki skýrt af hverju hann hagaði sér með þessum hætti. Lögmaður Cruz segir að hann hafi á þessum tíma þjáðst af streitu því aðeins mánuði áður en hann varð uppvís að því að misþyrma föngunum, hafi tveir félagar hans látist í sprengingu. Hann segir skjólstæðing sinn stríðshetju sem hafi hlotið bronsstjörnuna og purpurahjartað og særst í sprengjuáráa. „Hann lagði sitt af mörkum til stríðsreksturs Bandaríkjastjórnar sem þakkar sér frelsun Íraks. Hann tók þátt í honum og þótt hann hafi gert mistök varðandi þessa þrjá íröksku fanga á hann hrós skilið fyrir framlag sitt til frelsunar Íraks,“ sagði lögmaður Cruz á blaðamannafundi eftir að dómurinn féll.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×