Viðskipti innlent

Keyptu 50% í fjarskiptafyrirtæki

Íslenska útvarpsfélagið hefur keypt helmings hlut í nýju fjarskiptafyrirtæki, IP-fjarskiptum ehf., að því er segir í fréttatilkynningu. IP-fjarskipti eiga helmings hlut í Firstmile á Íslandi ehf. á móti Zyxel sem er alþjóðlegt fyrirtæki og framleiðandi á DSL-búnaði og DSL-beinum. IP-fjarskipti munu í samstarfi við Íslenska útvarpsfélagið strax í haust bjóða nettengingu með miklum hraða, allt að 20 Megabita á sekúndu, símaþjónustu og sjónvarp. Fyrst um sinn verður þjónustan boðin á höfuðborgarsvæðinu en áform eru um að stækka þjónustusvæði fyrirtækisins enn frekar þannig að það nái til a.m.k. 80% heimila eins fljótt og kostur er. Firstmile hefur þegar byggt upp háhraða ADSL-fjarskiptanet á höfuðborgarsvæðinu og getur boðið tengingar með allt að tíföldum hraða miðað við núverandi ADSL-tengingar á markaðinum segir í tilkynningunni. Zyxel hefur náð umtalsverðum árangri og er með 40% markaðshlutdeild í Evrópu á DSL-beinum og 16% markaðshlutdeild á heimsvísu að því er segir í tilkynningunni. Höfuðstöðvar Zyxel eru í Taiwan. Framkvæmdastjóri IP-fjarskipta er Arnþór Halldórsson. Arnþór starfaði áður sem framkvæmdastjóri við uppbyggingu og markaðssetningu Tals hf. Að undanförnu hefur hann starfað sem framkvæmdastjóri Iceland Express.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×