Innlent

Ríkisstofnunum hugsanlega fækkað

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að kanna hvort fækka megi ríkisstofnunum. Sett verður á fót sérstök ráðherranefnd fjögurra ráðherra sem skipa einn fulltrúa hver í framkvæmdanefnd undir formennsku fulltrúa fjármálaráðherra. Framkvæmdanefndin mun hafa það verkefni að endurskoða stofnanakerfi og rekstur verkefna á vegum ríkisins. Einnig verður hugað að því hvernig taka megi ákveðin verkefni úr umsjá ríkisins. Kannað verði hvort fela megi aðilum utan ríkiskerfisins framkvæmd einstakra verkefna þótt kostnaður við þau verði áfram greiddur úr ríkissjóði. Að sögn Baldurs Guðlaugssonar, ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, eru stofnanir ríkisins um 240. Helmingur þeirra hefur færri en tuttugu ársverk. "Margar og litlar stofnanir eru verr í stakk búnar til að mæta nútímakröfum varðandi rekstur og stjórnun," segir Baldur. Nefndinni ber jafnframt að safna saman á einum stað sérþekkingu á framkvæmd verkefna á vegum ríkisins og samræma vinnubrögð milli ráðuneyta varðandi fyrirkomulag á rekstri verkefna ríkisins. Að sögn Baldurs hafi nefndinni ekki verið sett nein tímamörk enda sé um að ræða verkefni sem þurfi að vinna í áföngum og yfir lengri tíma



Fleiri fréttir

Sjá meira


×