Viðskipti innlent

Strandhögg víkinganna

"Hvaða víkingur gerði strandhögg á Íslandi árið 2004? Svar: Baugur." Þannig leggur einn af pistlahöfundum viðskiptadagblaðsins Financial Times út af áhuga Baugs á Big Food Group, sem á meðal annars smásölufyrirtækið Iceland. Í breskum fjölmiðlum er mikið fjallað um áhuga Baugs á Big Food Group sem leiddi til mikillar hækkunar á verði hlutabréfa í félaginu þegar af honum fréttist í fyrradag. Blöðunum verður tíðrætt um bága stöðu fyrirtækisins. Sala tveggja stærstu verslanakeðja þess, Iceland og Booker, hefur dregist mjög saman og skuldir og eftirlaunaskuldbindingar gera því erfitt fyrir. Þessi staða gerir Baugi auðveldara fyrir að eignast fyrirtækið, segir í The Independent. "Með óaðfinnanlegri tímasetningu setja Íslendingarnir tilboð sitt fram í þann mund sem fyrirtækið neyðist til að senda út afkomuviðvörun," segir þar. Auk þess er bent á að þrátt fyrir erfiða stöðu Big Food Group nemi sala þess árlega enn um 640 milljörðum króna, sem gefi ýmis tækifæri.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×