Innlent

Undrast ásakanir kennara

Formaður samninganefndar sveitarfélaganna undrast ásakanir forsvarsmanna kennara um að loðið orðalag hafi rýrt gildi samninga sem kennarar gerðu við sveitarfélögin árið 2001. Hann segir ekki hægt að lofa því að komið verði til móts við kennara á fimmtudaginn, haldi þeir áfram tali um ófrávíkjanlegar kröfur. Í fréttum Stöðvar 2 á föstudag sagði Agla Ástbjörnsdóttir í samninganefnd kennara að hefði nefndin vitað fyrirfram hvernig framkvæmd samninganna við kennara árið 2001 hefði orðið, hefðu félagsmenn kolfellt samninginn. Þessi ummæli undrast formaður samninganefndar sveitarfélaga, Birgir Björn Sigurjónsson, sem segir að sett hafi verið á fót sérstök verkefnisstjórn til þess að svara öllum þeim spurningum sem upp kynnu að koma hjá kennurum. Þau svör megi finna á vefnum. Hann segir að orðalagið sé alls ekki loðið heldur séu samningsgreinarnar mjög vandaðar, sem og umfjöllunin í inngangi samningsins þar sem breytingar eru útskýrðar. En hvað sem öðru líður verður þetta orðaskak væntanlega ekki til þess að bæta andrúmsloftið fyrir næsta fund deiluaðila á fimmtudaginn. Kennarar ætla ekki að gera neinar tilslakanir fram að þeim tíma og flest bendir til að hið sama verði uppi á teningnum hjá launanefnd sveitarfélaganna. „Orð verða til alls fyrst; það gerist náttúrlega ekkert án samræðu,“ segir Birgir Björn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×