Innlent

Fækkun sveitarfélaga úr 103 í 39

Sveitarfélögum á Íslandi fækkar úr 103 í 39 samkvæmt tillögum nefndar um sameiningu sveitarfélaga sem kynntar voru á fundi á Hótel Nordica í dag. Á meðal tillagna nefndarinnar er að Suðurnes verði gerð að einu sveitarfélagi. Þar með yrði það eitt af stærstu sveitarfélögum landsins með tæplega 17 þúsund íbúa. Á meðal annarra tillagna nefndarinnar má nefna sameiningu allra sveitarfélaga á Snæfellsnesi, nema Kolbeinsstaðahrepp, en ráðamenn þar á bæ vilja fremur sameinast sveitarfélögum í Borgarfirði. Þá leggur nefndin til að sveitarfélögum á Vestfjörðum verði fækkað úr ellefu í þrjú. Hún leggur til að sveitarfélögin fimm í Suður-Þingeyjarsýslu verði sameinuð í eitt og að fimm sveitarfélög á Austurlandi sameinist. Það eru Fjarðabyggð, Mjóifjörður, Fáskrúðsfjörður, Breiðdalsvík og Austurbyggð. Alls eru þetta átta byggðarlög sem þá myndu sameinast í eitt sveitarfélag. Nefndin leggur ennfremur til að Garðabær og Álftanes verði sameinuð svo og að sveitarfélög Kjósahrepps og Reykjavíkur verði sameinuð. Miðað er við að íbúar um 80 sveitarfélaga greiði atkvæði um þessar tillögur í apríl á næsta ári en alls búa 213 þúsund manns í þessum sveitarfélögum, eða um 73 prósent landsmanna. Nánar verður sagt frá þessum tillögum í fréttum Stöðvar 2 klukkan hálf sjö.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×