Innlent

Gæslu í grunnskóla frestað

Frjálsri viðveru barna í íþróttahúsi og matsal grunnskóla Súðavíkur í verkfalli kennara hefur verið frestað að sinni, segir Ómar Már Jónsson, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps. Ástæðuna segir Ómar vera viðbrögð kennaranna við notkun húsnæðisins sem og að fulltrúar kennarar hafi rætt við foreldra og varað þá við að standa að gæslunni. Svava Pétursdóttir, formaður verkfallsstjórnar kennara, segir að fylgst verði með aðgerðum sveitarfélagsins. "Kennarar skólans í Súðavík fá aðstoð við að stöðva verkfallsbrotið verði af því. Óvíst er hvort það verði frá kennurum frá Ísafirði eða hvort við komum héðan að sunnan." Ómar segir að reynt hafi verið að koma til móts við kennarana með því að einskorða barnagæsluna við íþróttasal og mötuneyti skólans á þeim tímum sem kennsla í sölunum hefði ekki farið fram. "Með því töldum við okkur vera að gefa eftir eins og kostur var, með túlkun Félags grunnskólakennara á verkfallsbrotum í huga. Við bundum vonir um að breytingin nyti skilnings þar sem við höfum ekki annað húsrými til að nýta undir slíka gæslu," segir Ómar. Það hafi ekki gengið eftir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×