Innlent

Einn lést og annar á gjörgæslu

Pólskur karlmaður á fertugsaldri beið bana og landi hans slasaðist alvarlega þegar jeppi sem þeir voru í valt skammt frá Varmahlíð í Skagafirði í gærkvöldi. Bíllinn var á sumardekkjum en fljúgandi hálka var á svæðinu. Fjórir voru í bílnum en enginn í bílbeltum. Tilkynnt var um slysið á tólfta tímanum í gærkvöldi en það varð við bæinn Brekku, skammt frá Varmahlíð. Fernt var í bílnum, þrír karlmenn og ein kona. Þegar lögregla og sjúkralið kom á staðinn var einn karlanna látinn en hann hét Lukas Zewicz Rafal-Mariej, 34 ára gamall. Konan og einn karlanna sluppu án mikilla meiðsla en þriðji karlmaðurinn var mikið slasaður og liggur á gjörgæsludeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Að sögn læknis þar er hann ekki í lífshættu. Fólkið er pólskt kvikmyndagerðarfólk sem er hér á landi að gera mynd um Ísland og var á leið til Akureyrar. Að sögn lögreglu er hálku kennt um slysið en fljúgandi hálka var á svæðinu og bíllinn á sumardekkjum. Þá var enginn í bílnum í bílbeltum en maðurinn sem lést og sá sem slasaðist alvarlega köstuðust út úr bílnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×