Innlent

Ríkið efli sveitarfélögin

Borgarstjórn Reykjavíkur skorar á ríkisstjórnina að efla tekjustofna sveitarfélaga þannig að þau geti með eðlilegum hætti sinnt þeim verkefnum sem þau hafa með höndum. Áskorunin var samþykkt samhljóða á fundi borgarstjórnar í gær. Margrét Sverrisdótti, varaborgarfulltrúi Frjálslyndra lagði fram tillögu í þessa átt en henni var breytt með tillögu Reykjavíkurlistans. Margrét sagði á fundinum að það væri með ólíkindum að fulltrúar Reykjavíkurlistans vísuðu sífellt til þess að kennaraverkfallið væri í höndum launanefndar sveitarfélaganna á meðan flokkssystkyn þeirra á Alþingi brýndu ríkisvaldið til aðgerða. Hún féllst síðan á breytinguna og þótti hún viðunandi. Nefnd sem á að fjalla um breytta tekjustofna sveitarfélaganna kom saman í gær. Reyndist fundurinn árangurslaus og hefur annar fundur ekki verið boðaður fyrr en 12. nóvember, eftir að fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna lýkur. Nokkrir sveitarstjórar hafa lýst yfir nauðsyn þess að nefndin skili tillögum áður en ráðstefnan fer fram til að hægt sé að taka á bráðum fjárhagsvanda verst settu sveitarfélaganna. Fyrir fundinn í gær hafði nefndin ekki komið saman síðan í vor vegna ágreinings fulltrúa sveitarstjórnanna og ríkis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×