Innlent

Áhyggjur vegna skattalækkana

Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar lýsir yfir þungum áhyggjum vegna áforma ríkisstjórnarinnar um skattabreytingar að því er fram kemur í ályktun fundar stjórnar félagsins í gær. Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar dregur í efa þá fyllyrðingu að nú sé svigrúm til skattalækkana. Í ályktuninni segir ennfremur orðrétt: „Enn býr heilbrigðiskerfið við fjársvelti, komugjöld á heilsugæslustöðvar eiga að hækka, innritunargjöld í Háskóla Íslands eiga að stórhækka, sveitarfélögin skortir fjármagn til að greiða starfsmönnum sínum viðunandi laun og áfram mætti telja. Þá hefur einnig verið sýnt fram á að í hagstjórnarlegu tilliti eru skattalækkanir nú afar hæpnar.“ Fundurinn fordæmir líka þá aðferð sem fara á til skattalækkana, lækkun skattprósentunnar, sem einkum kemur hinum tekjuhærri til góða en skilar hinum tækjulægri litlu sem engu, eins og segir í ályktuninni.  „Viðbúið er að þessar skattbreytingar munu hafa í för með sér hækkun þjónustugjalda í opinberri þjónustu og þar með meiri útgjöld fyrir fólk með litlar tekjur. Það kallar óneitanlega á hærri launakröfur þeim til handa sem aftur getur valdið miklum átökum, einkum á opinberum vinnumarkaði þar sem svigrúm til launahækkana kemur til með að minnka,“ segir að lokum í ályktun Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×