Innlent

Vetrarfríi grunnskólanna aflýst

Vetrarfríi grunnskólanna í Reykavík, sem átti að hefjast á miðvikudaginn og standa út vikuna, verður aflýst. Ákvörðun um þetta var tekin á fundi fræðslunefndar borgarinnar í gær. "Mér finnst það alveg kolvitlaus skilaboð til barnanna að koma beint úr verkfalli í frí," segir Stefán Jón Hafstein, formaður fræðslunefndar. Hann segir ljóst að einhverjir kennarar hafi skipulagt frí á þessum tíma og ef þeir telji sig ekki geta breytt því fái þeir vissulega að taka fríið. Þeim sé það fullkomlega heimilt. Hann segist hins vegar ekki gera ráð fyrir því að margir kennarar fara í frí eftir þetta langa verkfall. Þrír skólar í borginni höfðu ekki skipulagt að taka vetrarfrí, það eru: Hagaskóli, Hvassaleitisskóli og Ísaksskóli. Allir aðrir skólar höfðu skipulagt frí og hefur skólastjórum þeirra verið falið að útfæra það nákvæmlega hvernig þeir muni bregðast við til að halda uppi sem eðlilegustu skólastarfi. Stefán Jón segir að allir kennarar sem mæta til vinnu í vetrarfríinu fái borgaða yfirvinnu. Aðspurður hvað það kostar borgaryfirvöld segir hann: "Í svona tilfellum spyr maður ekki hvað þetta kostar. Það er bara að kýla á það."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×