Innlent

Van Gogh myrtur í Amsterdam

Hollenski kvikmyndagerðarmaðurinn Theo van Gogh, sem gerði meðal annars umdeilda mynd um islamska menningu, var stunginn og skotinn til bana í Amsterdam í gær. Eftir stuttan skotbardaga handtók lögreglan mann sem grunaður er um morðið. Myndin sem van Gogh gerði heitir Submission og fjallar um ofbeldi gegn konum í islömskum þjóðfélögum. Eftir að myndin var sýnd í hollensku sjónvarpi fékk van Gogh fjölda líflátshótana. Vitni segja að hann hafi verið hjólandi þegar maður, klæddur í marokkóskan klæðnað, hafi ráðist á hann. Um ein milljón múslíma býr í Hollandi. Hollenska stjórnmálakonan Ayaan Hirsli Ali, sem flúði nauðungarhjónaband í Sómalíu á sínum tíma, aðstoðaði Gogh við gerð myndarinnar. Hún nýtur nú lögregluverndar því síðan myndin var sýnd hefur hún líkt og Gogh fengið líflátshótanir. Gogh, sem á ættir sínar að rekja til listmálarans fræga, var að leggja lokahönd á mynd um hægriöfgamanninn Pim Fortuyn þegar hann var myrtur. Fortuyn, sem var harður andstæðingur innflytjenda, var myrtur árið 2002. Bæði Jan Peter Balkenende, forsætisráðherra Hollands, og Beatrix drottning hafa fordæmt morðið á van Gogh.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×