Erlent

Barist um Ohio

Þegar 91 prósent atkvæða í Ohio hefur verið talið og eftir á að telja hálfa milljón atkvæða munar 102 þúsund atkvæðum á George W. Bush og John Kerry sem þarf nauðsynlega að sigra í ríkinu ef hann ætlar sér að eiga einhvern möguleika á því að verða forseti. Tvær stöðvar hafa þegar spáð Bush sigri í ríkinu en aðrir fjölmiðlar segja það of snemmt. Í prósentum talið er Bush með 51 prósent atkvæða í Ohio en Kerry með 49 prósent. Baráttan er æsispennandi í fleiri ríkjum. Bush er kominn með forystu í Iowa en því ríki tapaði hann fyrir fjórum árum þegar hann atti kappi við Al Gore. Þar munar þó aðeins sjö þúsund atkvæðum þegar búið er að telja 91 prósent atkvæða og um hundrað þúsund atkvæði ótalin. Kerry hefur mjög naumt forskot í Wisconsin þar sem hann hefur fengið 25 þúsund atkvæðum meira en Bush þegar eftir á að telja 400 þúsund atkvæði. Minnstu munar þó í Nevada þar sem Kerry er með tvö þúsund atkvæðum meira en Bush þegar 41 prósent atkvæða hafa verið talin og eftir er að telja 700 þúsund atkvæði hið minnsta. Ef ekkert breytist verður George W. Bush forseti Bandaríkjanna. Samkvæmt samantekt AP-fréttastofunnar hefur hann tryggt sér 249 kjörmenn af þeim 270 sem þarf til að vinna kosningu, að auki leiðir hann í ríkjum þar sem 32 kjörmenn eru í húfi. Falli þeir honum í hlut fær Bush 281 kjörmann og hlýtur því endurkosningu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×