Innlent

Þáttur Þórólfs flokkspólitískur

Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, sakar Davíð Oddsson, formann Sjálfstæðisflokksins, um að gera þátt borgarstjóra í olíusamráðsmálinu að flokkspólitísku máli. Össur segir Þórólf Árnason njóta stuðnings til áframhaldandi starfa. Davíð Oddsson sagði í fréttum í gærkvöldi að fjölmiðlar hefðu hlíft Þórólfi Árnasyni borgarstjóra í umfjöllun um þátt hans í samráði olíufélaganna og ef borgarstjóri væri Sjálfstæðismaður hefði allt orðið vitlaust. Össur segir pólitískan blóðþorsta ráða þarna ferð hjá Sjálfstæðismönnum, að senda Davíð út á völlinn til að ata borgarstjóra auri. Hann sér ástæðu til að minna á að Þórólfur hafi átt sinn þátt í að lækka símakostnað almennings og spyr hver sé ábyrgð stjórnarformanna - hvort þeir eigi virkilega bara að sleppa. Össur segir að sér þyki magnað hvað formaður Sjálfstæðisflokksins ræðst heiftarlega á Þórólf Árnason og langt sé gengið í að gera málið að flokkspólitísku máli. Hann bendir á að formaður Sjálfstæðisflokksins og fleiri innan flokksins hafi haldið verndarhendi yfir mönnum eins og formanni útvarpsráðs sem bersýnilega hafi misnotað sína stöðu. Þá bendir Össur á þátt forstjóra Símans í að nota almannafé til að kaupa hlut í fyrirtæki sem verið hafi í höndum sjálfstæðismanna. Össur segir Þórólf njóta trausts til áframhaldandi starfa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×