Innlent

Þórólfur í samráði um verð til almennings

Þórólfur Árnason borgarstjóri hefur sagt í fjölmiðlum að hann hafi ekki komið nálægt ákvörðun um verðsamráð olíufélaganna og að hann hafi ekki vitað um náið samstarf forstjóra olíufélaganna þegar hann starfaði sem markaðsstjóri Essó frá árinu 1993 til 1998. Þórólfur er 127 sinnum nefndur á nafn í niðurstöðu Samkeppnisráðs um samráð olíufélaganna. Í nokkrum tilvika virðist hann hafa komið mjög við sögu í samráði félaganna um sölu á bensíni til almennings. Samráð um bensínverðÍ minnispunktum Þórólfs eftir samráðsfund olíufélaganna í ágúst 1994 segir meðal annars "Bensínhækkun allt að 3kr". Í niðurstöðu Samkeppnisráðs segir að samkvæmt þessu hafi verið rætt um eða ákveðið að hækka verð á bensíni um allt að þrjár krónur á lítra. Í handskrifuðu minnisblaði frá Þórólfi, dagsettu 3. janúar 1995, sem lýsir fundi framkvæmdastjóra markaðssviða olíufélaganna þriggja segir "Ath. Breyta 92 okt "upp" um ca. 1. kr. 15. jan." Þetta er túlkað af Samkeppnisráði á þann hátt að á fundinum sem Þórólfur sat hafi verið ákveðið að hækka verð á 92 oktana bensíni um eina krónu. Þann 18. janúar 1996 hittust Þórólfur og starfsbræður hans hjá Olís og Skeljungi og ræddu um verð á bensíni og ákváðu að lækka verð á 95 oktana bensíni um 1 til 1,20 krónur á lítra. Þann 6. janúar 1997 sendi framkvæmdastjóri markaðssviðs Olís tölvupóst til Þórólfs þar sem stungið var upp á fundi til að ræða m.a. "5 kr. afslátturinn í gasolíu og kortaafsláttur til stórkúnna". Jafnframt átti að ræða verð og framlegð af sölu smurolíu og aðgerðir til að minnka samkeppni í sölu smurolíu með því að koma keppinautnum Bílanausti út af smurolíumarkaðnum. Þessum tölvupósti svaraði Þórólfur og ákveðið var að halda fund 13. janúar 1997. Fram kemur í niðurstöðu Samkeppnisráðs að Þórólfur hafi staðfest að honum hafi verið kunnugt um að forstjórar olíufélaganna hefðu rætt sín á milli um að afkoma félaganna væri slæm og að við því yrði að bregðast með því að vinna að hækkaðri álagningu. Þann 6. mars 1997 sendi Þórólfur tölvupóst til vörustjórans og spurði hvort "búið sé að ná samstöðu um hækkun á gasverðum". Hann fékk svar um að nýtt verð hafi tekið gildi "samræmd milli olíufélaganna". Samráð vegna útboðaÞórólfur virðist líka hafa tekið virkan þátt í samráði olíufélaganna í verðtilboðum til stærri viðskiptavina. Í minnisblaði til Geirs Magnússonar þann 11. september 1994 segir Þórólfur að E.B. hafi verið sammála sér þegar hann nefndi að að nú þyrftu félögin öll að vera mjög vakandi í því að láta ekki egna sig saman í verðstríð í útboðum. Í tölvupósti sem Þórólfur sendi til Geirs Magnússonar, fyrrverandi forstjóra Essó, í janúar 1997 vegna útboðs Ríkiskaupa á smurþjónustu gerði hann grein fyrir þeirri ákvörðun að gera ekki tilboð vegna útboðs og gefur tölvupósturinn til kynna að olíufélögin hafi rætt útboðið sín á milli og að Essó hafi verið fullvissað um að Skeljungur og Olís myndu ekki bjóða. Í tölvupóstinum segir meðal annars: "Ákveðið að senda ekki neitt inn. ... Miðað við njósnir smurstöðvanna og mín, þá tel ég öruggt að enginn sendi inn tilboð." Í niðurstöðu Samkeppnisráðs segir að þann 3. janúar hafi Þórólfur talið öruggt að hin félögin myndu ekki senda inn tilboð. Í því fælist ekki spá hans heldur vissa um aðgerðir, meðal annars Olís og Skeljungs. Samráð um svæðaskiptinguÁ árinu 1995 fóru fram umfangsmiklar viðræður milli olíufélaganna um hugsanlega frekari markaðsskiptingu í rekstri bensínstöðva á landsbyggðinni. Minnisblað framkvæmdastjóra markaðssviðs smásölu hjá Olís lýsir í átta liðum því sem um var rætt á fundinum. Undir öðrum lið er bókað: "Þórólfur tók vel í hugmyndina að Búðardalur og Þórshöfn yrðu lögð niður gegn því að Esso færi frá Neskaupstað og Reyðarfirði." Þann 28. ágúst gerði Þórólfur forstjóra félagsins grein fyrir stöðu málsins og lagði fram nýjar tillögur. Þar var meðal annars lagt til að Essó keypti skála Olís og Shell á Búðardal og þau hættu rekstri. Sama átti að gilda um Mývatn þar sem Olís og Shell áttu að hætta rekstri til að Essó sæti eitt að markaðnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×