Skoðun

Ísland í dag - í gær

Komdu sæll Egill. Ekki varstu svo óheppinn að hafa séð Ísland í dag í gær þar sem Jóhanna Vilhjálmsdóttir og Þórhallur Gunnarsson ætluðu nú aldeilis að auka áhorfið og taka Þórólf Árnason borgarstjóra af lífi í beinni útsendingu?   Ég held að ég geti fullyrt það hér og nú að aldrei áður hafi öðrum eins sjónvarpsþætti verið dreift til landsmanna áður.  Þáttastjórnendurnir urðu sér til háborinnar skammar og maður spyr sig hverslags fréttamennska það er að hreyta fúkyrðum framan í gesti sína?  Þau ættu umsvifalaust að biðjast afsökunar á þessum hroðalegu vinnubrögðum.  Hverslags fréttamennska er það að spyrja Þórólf í sífellu:  "Af hverju segir þú ekki af þér?!  Ha?  Af hverju segir þú ekki af þér Þórólfur!?  Reykvíkingar vilja að þú segir af þér!  Svaraðu mér Þórólfur!!"  Þau gersamlega misstu sig.  Og hvað var eiginlega Jóhanna Vilhjálmsdóttir að taka viðtal við borgarstjóra Reykjavíkur?  Ekki nóg með það að hún sé að mínu áliti vanhæf í að stjórna þessum þáttum yfirhöfuð, heldur er hún gjörsamlega vanhæf að taka viðtal við borgarstjórann á tímapunkti sem þessum.  Ætli faðir hennar; Vilhjálmur Vilhjálmsson borgarfulltrúi sé ekki einmitt sá einstaklingur sem græði mest á því ef Þórólfur fer? Það er eitt að þjarma að gestum sínum í beinni útsendingu, en það er allt annað að vera með argasta dónaskap og sýna jafnmikla óvirðingu eins og þau Jóhanna og Þórhallur sýndu borgarstjóra í gær.  Og hvaða rétt hafa þau til að líta á sig sem talsmenn Reykvíkinga?  Hvaða rétt hafa þau til að vera kviðdómari, dómari og böðull? Ég fékk bara bókstaflega í magann af þessum ónotum og leiðindum.  Það eina sem bjargaði þessu var þessi svokallaða símakönnun, þar sem 65 % þeirra sem tóku þátt vildu einmitt að Þórólfur segði EKKI af sér.  Þegar úrslit könnunarinnar lágu fyrir litu Jóhanna og Þórhallur út eins og flón.  Þetta var orðið illa vandræðalegt, þau búin að skjóta sig gjörsamlega í fótinn og borgarstjórinn sitjandi þarna á móti þeim með grátstafinn í kverkunum. Einhvern veginn grunar mig að fólkið sem tók þátt í þessari blessuðu símakönnun hafi verið svo gjörsamlega misboðið hvernig Jóhanna og Þórhallur létu, að það fólk sem áður krafðist afsagnar Þórólfs hafi bara sárvorkennt karlgreyinu fyrir að sitja undir þessari afleitu "aftöku". Nú vil ég taka það skýrt fram að ég er Vinstri Grænn og ég vil að Þórólfur Árnason segi af sér.  Ekki það að ég líti á manninn sem ótýndan glæpamann, en menn verða að bera ábyrgð á gjörðum sínum.  Ef embættismenn í hans stöðu lenda í hneykslismáli af þessari stærðargráðu, (vinstrimenn, miðjumenn eða hægrimenn) þá ber þeim að segja af sér.  Mér þykir vænt um Þórólf, en ég veit að ég myndi krefjast þess að borgarstjóri Sjálfstæðismanna segði af sér ef hann væri í sporum Þórólfs nú.  Jafnt á að ganga yfir alla, hversu sárt sem það er. En þrátt fyrir að ég krefjist afsagnar hans, þá var mér gjörsamlega misboðið hvernig farið var með kallinn.  Ísland í dag breyttist í svona "street justice / Jerry Springer" þátt þar sem reiðir þáttastjórnendur tóku lögin í sínar hendur, óðu yfir viðmælenda sinn, skutu fyrst og spurðu svo. Svo heitir þátturinn Ísland í dag.  Tja, þetta er nú ekki það Ísland sem ég vil kannast við, hvorki í dag né í gær né á morgun. Eins og Benjamin Franklin sagði eitt sinn:  "Það sem hefst í reiði, endar með skömm".  Það á vel við hér. Haltu svo áfram á sömu braut Egill, þættir þínir eru hreint út sagt stórkostlegir. Virðingarfyllst Karl Ferdinand Thorarensen



Skoðun

Sjá meira


×