Innlent

Leikskólagjöld færa 28 milljónir

Hækkun leikskólagjalda til námsmanna þar sem annað foreldra er í námi, færir borgarsjóði 28 milljónir króna. "Þetta er ekki spurning um peninga," sagði Þorlákur Björnsson formaður leikskólaráðs um þessa tillögu um breytingu á gjaldskrá Leikskóla Reykjavíkur, sem ráðið hefur samþykkt og bíður afgreiðslu borgarráðs. Samkvæmt tillögunni munu foreldrar, þar sem einungis annað er í námi, greiða 31.330 krónur á mánuði í stað 22.200 eins og nú er. Gjald fyrir börn, þar sem annað foreldrið er öryrki, mun hins vegar lækka úr 22.200 krónum í 16.120. Þorlákur sagði að áður fyrr hefði Lánasjóður íslenskra námsmanna verið með framfærslu námsmanna tekjutengda við maka. "Þegar makinn var kominn upp í ákveðnar tekjur, þá rýrði það framfærslu námsmannsins. Þá var komið til móts við þá með því að stofna ákveðinn gjaldflokk hjá Leikskólum Reykjavíkur, sem veitti þessum námsmönnum ákveðinn afslátt. Nú, þegar LÍN er hættur að tekjutengja framfærslulánin við tekjur maka og námsmaðurinn fær fulla framfærslu, þá finnst okkur óeðlilegt að þessi sértæki afsláttur sé áfram við lýði, því forsendurnar hafa breyst."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×