Innlent

Forsætisráðherra olíufélaganna

Halldór Ásgrímsson krafðist þess í umræðum á Alþingi í dag að Össur Skarphéðinsson bæði afsökunar á því að hafa kallað hann sérstakan forsætisráðherra olíufélaganna. Snörp orðaskipti um olíumálið voru á þinginu. Þegar einhver stelur er ætlast til þess í siðuðu samfélagi að sá skaði sé bættur að fullu, sagði Össur Skarphéðinsson í upphafi fyrirspurnar til forsætisráðherra á Alþingi í dag. Hann sagði Samkeppnisstofnun hafa metið þann skaða, sem olíufélögin hefðu valdið samfélaginu með áralöngu ólögmætu samráði, vera um sex milljarða króna. Því dugi ekki til að sekta félögin um tæpa þrjá milljarða. Í framhaldi af afsökunarbeiðni olíufélaganna sagðist Össur vilja láta reyna á það hvort þau séu reiðubúin að endurgreiða samfélaginu upphæðina sem Samkeppnisstofun nefnir og sagði hann eðlilegt að Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra hefði forgöngu um slíkar viðræður.  Forsætisráðherra benti á að málinu væri ekki lokið á öllum stigum réttarkerfisins. Hann spurði Össur hvort hannn hefði ekki heyrt talað um aðskilnað dómsvalds, framkvæmdavalds og löggjafarvalds, og, hvort hann væri að leggja til breytingu á stjórnarskránni. Össur spurði þá á móti hvort Halldór væri forsætisráðherra olíufélaganna. Halldór sagði úrskurðarnefnd samkeppnismála hafa verið setta á stofn til að fjalla um þetta mál og lög sett sem kveða á um hvernig skuli taka á málum sem þessum fyrir dómstólum. Össur sagði það þá vera til skammar hvernig forsætisráðherra verji olíufélögin. Ráðherra svaraði því til að það væru núna fleiri en olíufélögin sem þyrftu að biðjast afsökunar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×