Innlent

Olíudreifing var skálkaskjól

Forystumenn Essó og Olís fullyrtu þegar Olíudreifing var stofnuð árið 1995 að samkeppni yrði ekki minni en áður. Á sama tíma nýttu þeir Olíudreifingu til að miðla upplýsingum sín á milli um viðskiptaleyndarmál. Stofnun Olíudreifingar árið 1995 er gott dæmi um kaldrifjuð áform stjórnenda fyrirtækjanna um að blekkja og klekkja á almenningi. Fyrirtækið var kallað „Leynifélag ODR“ innan olíufélagsins. Þar var upplýsingum um nýja samkeppni olíufélaganna miðlað, upplýsingum um birgðastöðu keppinauta um viðskiptaáform og Olíudreifing miðlaði upplýsingum til félaganna þriggja um þá útgerðarmenn sem keyptu olíu frá Landsambandi íslenskra útvegsmanna í tengslum við tilraunir LÍÚ að lækka verð á skipaeldsneyti. Stjórnarmenn í olíufélögunum sem fréttastofa hefur rætt við segjast undantekningarlaust ekki hafa vitað af samráði. Ekki verður um villst að stjórnarmenn voru með á nótunum þegar skoðað er sjónvarpsviðtal frá þessum tíma við Gísla Baldur Garðarsson, þáverandi stjórnarformann Olís. Spurður hvort einhver samkeppni verði á milli Olís og Essó, t.d. í smásölu, sagðist hann telja engar forsendur vera til staðar sem bentu til þess að dregið yrði saman í samkeppni. Svo segir hann orðrétt: „Það er ljóst að menn verða í samvinnu um ákveðna þætti sem varða dreifingu en samkeppni á öðrum sviðum, hún verður ekkert minni en hún hefur verið.“ Jafn blákalda lygi er að heyra í svari Geirs Magnússonar, forstjóra Essó, þegar hann var spurður um samkeppnina sama ár. Hann sagði orðrétt: „Samkeppni mun verða af fullum krafti eins og verið hefur. Ekki minni.“  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×