Innlent

Hækkun leikskólagjalda samþykkt

Leikskólagjöld hækka um allt að 42 prósent um áramótin hjá fólki í sambúð þar sem annað foreldrið er í námi. Borgaryfirvöld samþykktu í gær að breyta gjaldskrá Leikskóla Reykjavíkur. Rökin fyrir breytingunni eru meðal annars þau að tekjutenging námslána hafi verið afnumin og því hafi hagur námsmanna vænkast. Jarþrúður Ásmundsdóttir, formaður stúdentaráðs hefur gagnrýnt þessa röksemdarfærslu harðlega og sagt að árangur stúdenta í að fá samþykkt afnám tekjutengingarinnar eigi ekki að bitna á þeim með þessum hætti. Þorlákur Björnsson, formaður leikskólaráðs, segir að þegar tekjutengingin var við lýði hafi verið búinn til sérstakur gjaldflokkur fyrir foreldra í sambúð þar sem annað var í námi. Nú sé búið að afnema tekjutenginuna og því rökrétt að fella niður þennan sérstaka gjaldflokk. Hann undrast að fólk skuli ekki fallast á þessi rök. Samkvæmt núgildandi gjaldskrá greiða foreldrar þar sem annað er í námi 22.200 krónur á mánuði fyrir níu klukkustunda vistun. Um áramótin mun gjaldið hækka í 31.330 krónur fyrir þetta fólk. Gjald fyrir foreldra þar sem annað er öryrki mun hins vegar lækka úr 22.200 krónum á mánuði í 16.120 krónur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×