Innlent

Krefst um eins árs fangelsis

Saksóknari krafðist þess að tuttugu og eins árs maður, sem framdi vopnað bankarán í útibúi Búnaðarbanka Íslands á Vesturgötu í Reykjavík 17. nóvember fyrir ári síðan, fengi í kringum tólf mánaða fangelsisdóm. Aðalmeðferð málsins lauk í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Með manninum var tuttugu og fimm ára maður ákærður en hann ók bílnum sem notaður var við ránið. Í ákæru ríkissaksóknara segir að sá eldri hafi látið yngri manninum í té hníf og lambhúshettu, sem hann hafi hulið andlit sitt með er hann fór inn í bankann og ógnaði tveimur gjaldkerum með hnífum. Neyddi yngri maðurinn annan gjaldkerann til að láta af hendi 430 þúsund krónur í peningaseðlum, sem ræninginn hafði síðan á brott með sér. Sá eldri játaði akstur flóttabílsins fyrir dómi en neitaði að eiga þátt í ráninu að öðru leyti. Saksóknari taldi sanngjarnt að hann fengi skilorðsbundinn dóm. Hann er með hreint sakavottorð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×