Innlent

Neyðarlínan vill vita um símana

Neyðarlínan leggur áherslu á að fyrirtækjum sem hyggjast bjóða símaþjónustu sem byggir á internettækni (IP símar) verði gert að hafa innbyggða staðarákvörðun í símkerfi sín. Þórhallur Ólafsson, framkæmdastjóri Neyðarlínunnar, segir að unnið sé að því með Póst- og fjarskiptastofnun að ákvarða hvaða kröfur verði gerðar í þessum efnum, en vitað er til að fyrirtæki hafa hug á að bjóða símaþjónustu í auknum mæli yfir netið. "Við höfum fylgst með þróuninni annars staðar í heiminum. Þetta er ekki vandamál í dag en gæti orðið stórt vandamál á morgun," segir hann. Að óbreyttu segir Þórhallur að fólk með IP síma gæti lent í erfiðleikum með að kalla á aðstoð í útlöndum með því að hringja í evrópska neyðarnúmerið 112 því símtalinu yrði vísað í neyðarmiðstöðina hér heima. Hann veit þó ekki til þess að vandamál þessu tengd hafi komið upp hér á landi. "En þetta er stórvandamál í Bandaríkjunum. Fyrirtækin hér sem nota þessa IP síma, svo sem Vegagerðin og fleiri, eru bara svo pottþétt að ekki þarf að hafa af þeim áhyggjur."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×