Viðskipti innlent

Útrás líkust innrás

Nálægð við gjöful fiskimið er ekki lengur driffjöður hagsældar á Íslandi og útrás íslenskra fyrirtækja er orðin svo kröftug að nær lagi væri að tala um innrás. Þetta kom fram í máli Arnar Daníels Jónssonar prófessors í Háskóla Íslands á miðvikudag. Örn Daníel flutti erindi á málstofu um nýsköpun þar sem hann fjallaði meðal annars um nýsköpunarkjarna og tók Kísildal í Kaliforníu sérstaklega til skoðunar. Hann greindi frá kenningum um nýsköpun þar sem meðal annars hefur komið í ljós að tiltekin landsvæði geta orðið miðstöðvar mikillar nýsköpunar þar sem skapandi einstaklingar á tilteknu sviði sækjast eftir að starfa í umhverfi þar sem mikil gerjun á sér stað. Fundurinn var haldinn í tilefni útkomu nýrrar bókar með safni greina í frumkvöðla- og nýsköpunarfræðum. Bókin heitir "Nýsköpun, staður - stund" og í henni er gerð tilraun til að greina atvinnuþróun undanfarinna ára. "Áherslan er á tengsl staðbundinnar klasamyndunar og hnattvæðingar," segir í frétt frá viðskipta- og hagfræðideild. Í fyrirlestri sínum sagði Örn Daníel það vera dæmi um þróun í atvinnulífinu að Bretland væri orðið meira athafnasvæði íslenskra útrásarfyrirtækja en hin Norðurlöndin. Örn sagði að á síðustu árum hefði útrás Íslendinga skyndilega tekið flug eins og sjá mætti á auknum umsvifum íslenskra fyrirtækja á ýmsum sviðum. Nefndi hann "Baugsvæðingu" Norður-Evrópu, útrás íslenskra flugfélaga og alþjóðleg umsvif íslenskra fjármálafyrirtækja.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×