Erlent

Andspyrnan brotin á bak aftur

Talsmenn Bandaríkjahers segja að andspyrna í borginni Fallujah í Írak hafi nú verið brotin á bak aftur. Uppreisnarmenn láta þó enn til sín taka og hóta þeim ofbeldi sem taka þátt í boðuðum kosningum í janúar. Ellefu dagar eru síðan bandarískar og írakskar hersveitir hófu stórsókn í Fallujah gegn andspyrnumönnum. Leitað var hús úr húsi og nú segja talsmenn hersins að uppreisnarmenn hafi ekkert skjól lengur. Á annað þúsund þeirra hafa verið felldir og annar eins fjöldi hneppt í varðhald. Fjöldi borgarbúa flúði svæðið en þeir eru nú hvattir til að snúa aftur heim og er þeim heitin aðstoð. Ekkert hefur verið látið uppi um mannfall meðal óbreyttra borgara. Deila má um hversu mikill sigur þetta er fyrir Bandaríkjamenn sem telja Fallujah hjarta andspyrnumanna. Stjórnmálaskýrendur segja að ástandið muni líklega versna enn þar sem súnní-múslímar líta á árásir á Fallujah sem árásir á sig. Harðir bardagar halda áfram og þá sérstaklega á svæðinu sem kennt er við súnní-þríhyrninginn, til dæmis í Mósúl þar sem liðsmenn al-Zarqawis segjast hafa hálshöggvið tvo írakska liðsmenn öryggissveitanna. Íraskar öryggissveitir handtóku í gær yfir eitthundrað uppreisnarmenn í Bagdad. Súnní- múslimar, sem eru um 20% þjóðarinnar, hóta að virða boðaðar þingkosningar í janúar að vettugi og andspyrnumenn hóta að refsa þeim grimmilega sem taka þátt í þeim. Þrátt fyrir það segist stjórnin ákveðin í að halda kosningarnar á tilsettum tíma.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×