Innlent

Svanfríður í bæjarstjórastólinn

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er um það rætt að Svanfríður Jónasdóttir, fyrrum þingkona Samfylkingar, verði næsti bæjarstjóri á Dalvík fyrir hönd I-lista Sameiningar. Sjálfstæðismenn í bænum hafa boðið Sameiningu bæjarstjórastólinn fari flokkarnir í meirihlutasamstarf en talið er líklegt að Sameining geti krafist þess að fá að velja bæjarstjóra verði farið í samstarf við framsóknarmenn. Sameining fundaði í gærkvöld til að taka ákvörðun um við hvorn flokkinn eigi að hefja meirihlutaviðræður við og höfðu þá forsvarsmenn Sameiningar heyrt í oddvitum bæði Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Meirihlutasamstarfi Framsóknar og Sjálfstæðisflokks var slitið á laugardag vegna ágreinings um framtíð Húsabakkaskóla í Svarfaðardal. Ekki er ljóst hvaða áhrif það mun hafa á framtíð skólans við hvern verður farið í samstarf. Ein tillagan sem rædd var á fundinum var að Svanfríður yrði bæjarstjóri, annar hinna flokkanna fengi forseta bæjarstjórnar og formann bæjarráðs en Sameining fengi meirihluta í nefndum bæjarins. Sjálfstæðismenn lögðu til á fundi bæjarstjórnar á þriðjudag að grunnskólinn á Húsabakka yrði sameinaður Dalvíkurskóla frá og með skólaárinu 2005-2006. Framsóknarmenn lögðu til að fresta ákvörðunum til 31. mars, en settur yrði á fót þriggja manna vinnuhópur til að útfæra nánari gögn varðandi framtíðarskipan grunnskólamála í Dalvíkurbyggð. Sameining lagði hins vegar til að engar breytingar yrðu á skólahaldi í Húsabakkaskóla út kjörtímabilið. Skólastjóri Húsabakkaskóla er Ingileif Ástvaldsdóttir, sem þar til nýlega var oddviti Sameiningar í bæjarstjórn. Fylkingarnar þrjár hafa því mjög ólíka afstöðu til áframhaldandi starfsemi skólans og þó svo að þetta málefni hafi orðið ásteytingarefni síðasta meirihluta verður að gera ráð fyrir að það verði lagt til hliðar til að greiða fyrir nýju meirihlutasamstarfi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×