Viðskipti innlent

Íbúðalánasjóður af lánamarkaði

Samtök banka og verðbréfafyrirtækja eru ákveðin í að koma Íbúðalánasjóði af lánamarkaði og hafa kært þátttöku ríkisins á markaðnum til EFTA-dómstólsins í Brussel. Eftirlitsstofnun EFTA hafnaði í ágúst síðastliðnum kvörtun Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja um að starfsskilyrði Íbúðalánasjóðs raskaði eðlilegri og virkri samkeppni banka á íslenskum lánamarkaði. Samtökin hafa nú áfrýjað þessari niðurstöðu til EFTA-dómstólsins. Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, segir það auðvitað sjálfsagt og eðlilegt, í jafn miklu grundvallarmáli og þarna er á ferðinni, að fá dóm æðsta dómstóls, enda segi færustu lögmenn Evrópu niðurstöðuna ekki standast.  Bankarnir eru argir út í Íbúðalánasjóð fyrir að lækka vexti sína niður fyrir það sem bankarnir buðu. Þeir telja óeðlilegt að þeir þurfi að standa í slíkri samkeppni við ríkisrekið batterí. Guðjón segir ekki rétt að bankarnir vilji ryðja Íbúðalánasjóði úr vegi til þess að geta svo hækkað vexti sína. Samkeppni milli bankanna tryggi að svo yrði ekki. Hann segir jafnframt að ekki sé óeðlilegt að íbúðalánasjóður sinni félagslegum hluta markaðarins en léti bankana um hitt.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×