Lífið

32 manna úrslit í IDOL halda áfram

32 manna úrslit í IDOL stjörnuleit halda áfram annað kvöld. Þau hófust á Stöð 2 í síðustu viku og þá stigu átta söngvarar á svið. 

Lagaval er nú í höndum keppenda en á föstudaginn var leituðu allir söngvararnir utan einn í smiðju erlendra lagahöfunda. Ólafsfirðingurinn Gísli Hvanndal Jakobsson skar sig úr hópnum en hann söng lag Magnúsar Þórs Sigmundssonar, Álfar. 

Tveir þátttakendur eru komnir í lokaúrslit keppninnar sem hefjast í Smáralind eftir áramótin og annað kvöld bætast tveir í hópinn. Eins og fyrr segir eru úrslitin í höndum sjónvarpsáhorfenda en niðurstaða SMS- og símakosningar verður tilkynnt í beinni útsendingu á ellefta tímanum á föstudagskvöldið. 

Dómnefndin er áfram á sínum stað en einvörðungu í hlutverki álitsgjafa. Líkt og í síðustu viku verður kvenþjóðina áberandi í næsta Idol-þætti. Strákarnir eiga samt sína fulltrúa en þessi syngja á Stöð 2 annað kvöld, föstudagskvöldið 26. nóvember. 

Hafnfirðingurinn Nanna Kristín Jóhannsdóttir, nemi í hjúkrunarfræði, hefur leikinn en síðan kemur röðin að Ásu Margréti Birgisdóttur, slípingameistara á Akureyri. Skúli Hakim Mechiat, oft kallaður Skúbbi nashyrningur, er annar strákanna í þættinum en hann er liðtækur á bæði bassa og píanó. Vestfjarðamærin Róslaug Guðrún Agnarsdóttir, sem starfar á leikskóla, heldur mikið upp á Celine Dion en það skal tekið fram að hún flytur samt ekki eitt af lögunum hennar í þessum þætti. Júlíus Bjargþór Daníelsson, fyrrverandi liðsmaður Rokklinganna, er hinn strákurinn í þættinum en Júlíus er rafvirki. 

Guðfræðingurinn Jóhanna Ýr Jóhannesdóttir er fulltrúi Sunnlendinga þessa vikuna en hún býr á Selfossi. Eyjastúlkan Rakel Björk Haraldsdóttir kemur úr sama kjördæmi og Jóhanna en Rakel vinnur í bakaríi í Vestmannaeyjum. Og loks er það Margrét Lára Þórarinsdóttir sem að eigin sögn ólst upp í himnaríki, Skriðuklaustri í Fljótsdal. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.