Innlent

Ísland ekki af listanum

Formaður utanríkismálanefndar Alþingis segist ekki vita til þess að ríkisstjórnin ætli að endurskoða stuðning sinn við innrásina í Írak. Hún segir ummæli þingflokksformanns Framsóknarflokksins í Silfri Egils í gær hafa komið sér á óvart. Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sagði í Silfri Egils í gær að vel kæmi til greina að Íslendingar afturkölluðu stuðning sinn við stríðið í Írak og færu af lista hinna staðföstu þjóða. Hjálmar virðist ekki hafa verið að tjá afstöðu stjórnvalda með þessum ummælum ef marka má orð Sólveigar Pétursdóttur, formanns utanríkismálanefndar. Hún segir ummæli Hjálmars hafa komið sér á óvart því hún viti ekki til þess að stjórnvöld hafi breytt afstöðu sinni varðandi málið. Það verði einnig að líta til þess að það felist engin þjóðréttarleg skuldbinding í því að vera á listanum. „Við teljum hins vegar mjög mikilvægt að sem flestar þjóðir leggi sitt af mörkum til uppbyggingarstarfs og að koma á lýðræði í Írak,“ segir Sólveig. Sólveig segir Íraksmálið vera til umfjöllunar í utanríkisnefnd og því sé reynt að fylgjast vel með gangi mála. Spurð hvort til greina komi að taka Ísland af nefndum lista ítrekar Sólveig að málið sé til umfjöllunar í nefndinni en segir að sér sé ekki kunnugt um að til greina komi innan ríkisstjórnarinnar að taka nafn Íslands af lista hinna staðföstu þjóða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×