Erlent

Ný byltingarkennd tækni

Nýr byltingarkenndur tölvukubbur og örgjörvi verður notaður í nýja heimilismiðlara fyrir breiðbandstengingar og hágæðasjónvarpssendingar sem Sony ætlar að bjóða til sölu árið 2006. Kubbinn, sem kallaður er Sellan eða Cell, segir Sony einnig verða notaðan í næstu kynslóð leikjatölva sem er í smíðum. IBM, Sony og Toshiba hafa unnið saman að þróun kubbsins síðustu þrjú ár. Í tilkynningu fyrirtækjanna í gær kom fram að örflagan geri tölvum og heimilistækjum kleift að vinna gífurlegt magn vídeóstreymis og annarra stafrænna gagna á miklum hraða. Tæknileg útfærsla Sellunnar verður kynnt á ráðstefnu örgjörvaframleiðenda í San Francisco í Bandaríkjunum í febrúar, en í kjarnann er búnaðurinn búinn 64 bita örgjörva, auk hliðarörgjörva sem sjá eiga um gagnasendingar til breiðbandstækja, svo sem tölvuleikjastreymi, kvikmyndir og annað stafrænt efni. IBM hefur frumframleiðslu kubbsins á fyrri helmingi næsta árs fyrir tölvu sem Sony er að búa til. Toshiba ætlar að hefja framleiðslu á hágæðasjónvarpi (high-definition TV) sem byggir á nýju tækninni árið 2006.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×