Innlent

Bæjarstjórinn komi úr Framsókn

Líklegt er að framsóknarmenn í bæjarstjórn Kópavogs fari fram á að embætti bæjarstjóra haldist í þeirra röðum þangað til í júní þegar Gunnar Birgisson, bæjarfulltrúi og þingmaður Sjálfstæðisflokks, tekur við starfinu. Guðrún Pálsdóttir, bæjarritari Kópavogs, verður staðgengill Sigurðar Geirdals þar til ákveðið verður hver gegni embættinu uns Gunnar Birgisson tekur við í júní á næsta ári. Guðrún tók nýlega við starfi bæjarritara tímabundið af Ástu Þórarinsdóttur og gegnir því fram að áramótum. Þá tekur Ólafur Briem við af henni. Ekkert hefur verið ákveðið um það hver muni gegna starfi bæjarstjóra þangað til í júní þegar Gunnar Birgisson, formaður bæjarráðs, tekur við starfinu. Sigurbjörg Vilmundardóttir fer inn í bæjarstjórn Kópavogs í stað Sigurðar, Gestur Valgarðsson verður fyrsti vara-bæjarfulltrúi og Una María Óskarsdóttir verður annar vara-bæjarfulltrúi. Þeir sem fréttastofan ræddi við innan bæjarstjórnar í dag sögðu að viðræður um hver tæki við af Sigurði fram í júní væru rétt að hefjast og af virðingu við Sigurð og fjölskyldu hans yrði beðið með ákvörðun þess efnis þangað til eftir útför hans. Þó væri afar ólíklegt að framsóknarmenn myndu samþykkja að Gunnar Birgisson tæki strax við embættinu, enda vilja framsóknarmenn halda stöðunni þangað til tími Sigurðar átti að renna út. Ekkert liggur þó fyrir um það hvort leitað verði til annað hvort Hansínu Björgvinsdóttur eða Ómars Stefánssonar sem skipað hafa 2. og 3. sæti lista Framsóknarflokksins, eða hvort hreinlega verði leitað út fyrir listann til þess að finna bæjarstjóra til næstu sex mánaða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×