Erlent

Vissu af misþyrmingum fyrir ári

Háttsettir herforingjar í Bandaríkjaher voru varaðir við því fyrir ári síðan að sérsveitarmenn og leyniþjónustumenn misþyrmdu föngum í Írak. Viðvaranirnar birtust í leynilegri skýrslu sem var tekin saman á vegum hersins, en þrátt fyrir hana hefur yfirstjórn Bandaríkjahers haldið því fram að henni hafi fyrst orðið kunnugt um misþyrmingarnar í byrjun þessa árs. Stuart Herrington, fyrrum yfirmaður í Bandaríkjaher, tók skýrsluna saman á sínum tíma en bandaríska dagblaðið Washington Post sagði frá henni í gær. Þar kemur fram að Herrington varaði við því fyrir ári síðan að upp úr kynni að sjóða og að bandarískir hermenn gætu búið við meiri hættu en áður ef upp um misþyrmingarnar kæmist. Í skýrslunni kemur enn fremur fram að föngum hafi verið misþyrmt víða í Írak. Það stangast á við afstöðu yfirstjórnar hersins, sem hefur haldið því fram að fangamisþyrmingar takmörkuðust við fangelsið Abu Ghraib.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×