Erlent

Uppreisnarmenn sækja í sig veðrið

21 Íraki lést í þremur árásum uppreisnarmanna í landinu í morgun. Svo virðist sem uppreisnarmenn sæki í sig veðrið eftir því sem nær dregur kosningum í landinu.   Sautján létust og þrettán særðust í árás sem gerð var í bænum Tíkrit í norðurhluta Íraks. Mennirnir sem létust voru á leið til vinnu í strætisvögnum þegar uppreisnarmenn á tveimur bifreiðum hófu skotárás á vagnana. Þá skutu uppreisnarmenn með hríðskotarifflum og sprengjuvörpum að bílalest í eigu írakska hersins. Í þeirri árás lést einn írakskur hermaður og fjórir særðust. Bílasprengja sprakk svo við bæinn Beiji og banaði þremur írökskum varðliðum og særði átján. Atburðirnir í morgun fylgja í kjölfar hrinu árása uppreisnarmanna í landinu. Fleiri en 70 Írakar hafa látið lífið í þeim síðustu þrjá daga. Bráðabirgðastjórnin heldur enn fast við áætlanir sínar um að efna til kosninga í lok næsta mánaðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×