Erlent

4 létust og 18 í gíslingu

Fjórir öryggisverðir voru drepnir og átján manns teknir í gíslingu, í árás á bandaríska ræðismannsskrifstofu, í borginni Jeddah, í Sádi-Arabíu í dag. Fregnir af þessum atburði eru óljósir ennþá, en svo virðist sem fimm menn vopnaðir hríðskotarifflum og handsprengjum hafi komist inn á lóð ræðismannsskrifstofunnar, og byrjað þar að kasta handsprengjum og skjóta. Fjórir saudi-arabiskir öryggisverðir voru drepnir, og átján innfæddir starfsmenn skrifstofunnar teknir í gíslingu. Ekki er vitað til þess að bandarískan starfsmann hafi sakað í árásinni. Saudi Arabískir þjóðvarðliðar gerðu gagnárás, felldu einn árásarmannanna og handtóku tvo til viðbótar. Þeir sitja nú um þá tvo sem eftir eru, en þeir munu hafa gíslana á valdi sínu. Eldur kom upp í byggingunni meðan á bardaganum stóð, og þaðan rísa reykjarbólstrar til himins. Sádar hafa lokað hverfinu þar sem ræðismannsskrifstofan er til húsa, og sendiráð Bandaríkjanna í höfuðborginni, Ríad, hefur verið umkringd hermönnum, í varúðarskini. Sjónarvottar segja að mikil skothríð og sprengingar hafi heyrst frá ræðismannsskrifstofunni þegar átökin stóðu sem hæst, en nú virðist hafa orðið hlé á bardögum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×