Innlent

Umhverfisráðuneytið virti ekki lög

Úthlutun umhverfisráðherra á fé úr veiðikortasjóði til rjúpnarannsókna eftir ársbyrjun 2003 var ekki í samræmi við ákvæði laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Það er álit umboðsmanns Alþingis sem fékk kvörtun í júní um að lög væru brotin. Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytis, segir að um eina úthlutun úr sjóðnum sé að ræða þar sem unnið hafi verið eftir gömlum úthlutunarreglum að máli sem hófst áður en nýjar reglur tóku gildi 1. janúar 2003. Skoða verði ábendingar umboðsmanns í ljósi þess. Unnið verði eftir nýju reglunum við næstu úthlutun úr sjóðnum sem verði fljótlega á næsta ári. Umboðsmaður Alþingis beinir til stjórnvalda að auglýsa eftir umsóknum um styrki sem þau hafa heimild til að veita af opinberu fé þegar ekki liggur fyrir hverjir koma til greina sem viðtakendur þeirra. Stjórnvöld gæti þannig jafnræðis milli borgaranna. Magnús segir það verða gert og þeim reglum fylgt sem gilda um sjóðinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×